föstudagur, maí 02, 2003

Sigmund Freud

Á laugardaginn verður haldin ráðstefna til heiðurs Sigurjóni Björnssyni sálfræðingi. Fjallað verður um sálgreiningu. Sigmund Freud verður væntanlega fyrirferðarmikill í umræðunni enda gerði hann afar heiðarlega tilraun til að skilja hugarheim mannsins. Held að ekki hafi verið vasklegar fram gengið í leit að skilningi á háttalagi okkar. Kenningar Freud eru vitaskuld ekki óaðfinnanlegar. Enda vart hægt að búast við því að gerð verði fullnægjandi grein fyrir háttalagi mannsins. Forspá og stjórnun mannlegrar hegðunar er ekki innan seilingar og verður væntanlega aldrei. Freudarinn sýndi samt snilldarleg tilþrif sem ekki eiga sér hliðstæðu í sálfræðinni.

Sigurjón Björnsson hefur gert sér lítið fyrir og þýtt verk Freud á íslensku. Ekki hefur það verið létt verk. Hann er því vel að þessum heiðri kominn. Ég var við nám í sálfræði við HÍ þegar að Sigurjón lét af störfum. Rita um það síðar. Það var merkileg upplifun að mæta í tíma til hans eftir að hafa hlýtt á empíriskar þulur samkennara hans.

Ég verð að viðurkenna að ég hef blendnar tilfinningar til sálfræðinnar sem fræðigreinar. Það eru einkum 3 kappar sem sitja í manni eftir námið. Freud og Skinner, sem eru á vissan hátt andstæðir pólar í fræðunum, og svo norsarinn Smedslund sem hakkar í sig sálfræðibullara. Magnaður maður Smedslund.
Sálfræðin í dag, sem fræðigrein, nær sér líklega best á strik sem varðhundur heilbrigðrar skynsemi.