laugardagur, apríl 19, 2003

Hallur yndir hallarhöllun?


Nú er nótt. Föstudagurinn langi að baki. Kristur hékk með þjófum fyrir tæpum 2000 árum.
Hvort ætli sé vænlegra að liggja yndir líni eða liggja í víni á nóttu sem þessari?

Ég ætla yndir línið. Gerði mér nefnilega lítið fyrir seint á síðasta ári og eignaðist son. Hann vaknar árla. Ég ætla að vakna með kappanum samgleðjast honum í ótæmandi lífsgleði hans. Ég velti því stundum fyrir mér þegar ég horfi á hann iðandi af lífi og brosandi út að eyrum hvort að maður hafi í fljótfærni sinni misst sjónar af fjörinu í tilverunni. Hvort maður skipti út brosi fyrir bögg með hverju árinu sem líður. Maður verður þá orðinn þrælböggaður um fimmtugt. Og alveg svívirðilega fúll öldungur. Ef til vill getur maður gírað sig upp í bullandi gleði og kæruleysi, hoppað um grundir og sönglað almættinu dýrðarsöngva. Reyndar er ég afar sáttur við almættið. Ber blendnari tilfinningar til sjálfs míns. "Í auga þínu, allt í heimi ásýnd fær, eins þú horfir, eins það grætur eða hlær" sagði einhver Þjóðverji. Stundum sér maður ekki þetta bullandi fjör sem auðvitað blasir við.

Hvað er þá til ráða? Hugsanlega að ganga fyrr til náða. Ég er farinn að hallast að því. Hallast að höllun. Hef aldrei hallað mér í höll. Hvernig ætli það sé? Ætli séu til menn sem eru sérdeilis hallir yndir hallarhöllun? Vilja hvergi annar staðar halla höfði. Ætli séu til menn sem vegna lífræðilegra furðuglegheita geta alls ekki hallað höfði? Þurfa því að gista uppréttir?

Kettir er afspyrnuvandaðir svæflar. Sofna með listrænum tilþrifum hvar og hvenær sem er. Afar farsælt að sofna með slíkum öndvegisdýrum. Svo er hægt að kveikja á mali í þeim ef manni gengur illa að sofna sjálfum. Ef það svæfir mann ekki þá er einfaldlega einhver hundur í manni og tilgangslaust að reyna að sofna.

Well, hverf í svefn. ZZZZZZZZZZZZZZZZZ

Engin ummæli: